Aðeins um 40 ár eru liðin frá því að fyrsta leikjatölvan kom á markað. Á skömmum tíma hafa tölvuleikir þróast mikið og eru þeir í dag stór hluti af vestrænni menningu. Fyrsti vinsæli tölvuleikurinn var tennisleikurinn PONG frá árinu 1972. Síðan þá hefur tölvuleikjaiðnaðurinn stækkað jafnt og þétt og úrval tölvuleikja aukist í takt við það. Til að byrja með voru tölvuleikir aðeins aðgengilegir þeim sem höfðu aðgang að dýrum tölvubúnaði í háskólum, fyrirtækjum og stofnunum. Tölvutæknin þróaðist hratt og á 8. og 9. áratugnum urðu leikjatölvur og heimilistölvur fáanlegar almenningi á viðráðanlegu verði. Tölvu- og tækniþróun helst í hendur við tölvuleiki, sem eru háðir tölvutækninni hverju sinni. Öflugar tölvur bjóða upp á fleiri og flóknari aðgerðir sem eykur frelsi tölvuleikjahönnuða í tölvuleikjagerð.

Á álíka löngum tíma hefur tölvuleikjaiðnaðurinn þróast úr fámennum hobbý-iðnaði yfir í stórfyrirtæki þar sem háar upphæðir eru notaðar í fjárfestingar og gróðaskyni, líkt og þekkist í kvikmyndabransanum í Hollywood. Fyrstu tölvuleikja-kynslóðirnar hafa nú vaxið úr grasi og hækkað meðalaldur tölvuleikjaspilara verulega. Sömuleiðis hefur fjölbreyttara úrval tölvuleikja aukið áhuga almennings á tölvuleikjum og hefur „óformlegum spilurum“ (e. casual players) fjölgað mikið með tilkomu snjalltækja. Líkt og í myndlist, tónlist, bókmenntum og kvikmyndum hafa tölvuleikir haft áhrif á umhverfi okkar og að sama skapi endurspeglað það samfélag sem við búum í.

 

Flóran er fjölbreytt í tölvuleikjaiðnaðinum líkt og sést hvað best hér á Íslandi með stóru leikjafyrirtæki á borð við CCP og minni leikjafyrirtækjum líkt og Radiant Games og Lumenox Games.

 

Sviðsljósið beinist fyrst og fremst að stóru tölvuleikjunum í dag, sem er afrakstur tugi, jafnvel hundruði, starfsmanna sem hafa unnið að gerð leiksins í nokkur ár. Slíkir leikir eru dýrir í framleiðslu og skila gjarnan inn miklum hagnaði. Flóran er fjölbreytt í tölvuleikjaiðnaðinum líkt og sést hvað best hér á Íslandi með stóru leikjafyrirtæki á borð við CCP og minni leikjafyrirtækjum á borð við Radiant Games og Lumenox Games. Áhugaverðir hlutir hafa verið að gerast við grasrótina þar sem lítil óháð tölvuleikjafyrirtæki framleiða tölvuleiki í mun frjálsara umhverfi en tíðkast í stærri fyrirtækjum. Líkt og með rithöfunda og leikstjóra þá geta markmið leikjahönnuða verið misjöfn og tilgangur leikja þar af leiðandi ólíkir. Þó eiga þeir það allir sameiginlegt að vekja upp tilfinningar hjá spilaranum sem fær að taka beinan þátt í því sem gerist á skjánum.

Á þessari vefsíðu er meðal annars farið yfir sögu tölvuleikja þar sem fjallað er um fyrstu tölvuleikina og farið yfir forsögu tölvuleikja og umfang leikjaheima til dagsins í dag. Hér er einnig hægt að nálgast upplýsingar um störf og hlutverk innan leikjaiðnaðarins og kynnast tölvuleikjafræði og uppbyggingu tölvuleikja.

Mynd: Shutterstock

Mynd: Shutterstock