FORRITARAR

Forritarar skrifa kóða sem saman stendur af skipunum. Hver skipun hefur áhrif á tölvuleikinn og segir hvað á að gerast á skjánum. Tökum dæmi um ítalska píparann Mario úr Super Mario Bros. tölvuleiknum frá 1985. Þegar Mario kýlir í ákveðinn spurningakassa í leiknum á peningur að birtast. Forritarar þurfa að brjóta hverja skipun niður í smáar einingar og byggja þannig upp kóða fyrir leikinn. Hér væri því hægt að brjóta ofangreint dæmi niður á eftirfarandi hátt:

 

  • Þegar spilari ýtir á takka A – þá hoppar Mario.
  • Þegar Mario hoppar – þá hreyfist Mario og færist.
  • Þegar Mario kýlir í kassa – þá birtist peningur.
  • Þegar Marió nær í pening – hverfur peningurinn og Mario fær +1 í pening.
  • Þegar peningar verða 100 – þá bætist við aukalíf og peningamælir núllstillist.
  • Svona mætti halda lengi áfram…

 

Til eru mörg mismunandi forritunarmál. Forritarar hafa náð tökum á völdum forritunarmálum og kunna með því að búa til skipanir sem tölvan skilur.

Við gerð tölvuleikja er nauðsynlegt að eiga samskipti við aðra samstarfsmenn, líka þá sem starfa ekki við forritun. Ákveðnir árekstrar geta skapast á milli heima hönnuða og forritara, þar sem hönnuðir búa undir miklu frelsi, á meðan forritarar eru meðvitaðir um takmörk og tíma sem fer í að forrita ákveðna þætti sem geta verið mun flóknari í framkvæmd en marga grunar.

Framhaldsskólar bjóða upp mis marga áfanga í forritun. Tækniskólinn býður upp á sérstaka tölvubraut þar sem nemendur geta valið áherslusvið og er forritun þar á meðal. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti býður einnig upp á sérstaka tölvubraut sem er samblanda af verknámi og bóknámi þar sem nemendur læra forritun og áhersla er lögð á stærðfræði, en gott er að hafa góðan grunn í stærðfræði til að læra tölvunarfræði og forritun á háskólastigi. Margir framhaldsskólar bjóða auk þess uppá forritun sem val. Á Íslandi býður Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík upp á tölvunarfræði á háskólastigi. Í tölvunarfræði er ekki eingöngu lögð áhersla á leikjaforritun, en nemendur geta valið sérstaka áfanga á brautunum sem tengjast leikjaforritun með einum eða öðrum hætti.

Ítarlegri kynning á forritun Skoða dæmi um leikjakóða

 

LISTAMENN OG HÖNNUÐIR

Listamenn og hönnuðir vinna fyrst og fremst að því sem tengist útliti leiksins. Þeir þurfa til dæmis að hanna og þróa bakgrunni, valmyndir ásamt útliti persóna, óvina og öðrum hlutum sem birtast í leiknum. Í flestum tilfellum er fyrsta skrefið að ræða við vinnufélaga um hvernig viðkomandi viðfangsefni – til dæmis aðalsöguhetja leiksins – á að líta út, til þess að fá grófa hugmynd um hverju verið er að leitast eftir. Á persónan að vera kvenkyns eða karlkyns? Er hún mennsk eða ekki? Er hún sterk? Frá hvaða tíma er persónan? Hvernig klæðir hún sig? Hvaðan kemur hún? Hvaða tilfinningar eiga að vakna hjá spilaranum við að horfa á hana? Allt getur þetta (og fleiri atriði) skipt miklu máli varðandi þróun á viðfangsefninu.

Fyrsta skrefið er gjarnan að rissa nokkrar hugmyndir á blað eða í tölvuskjánum til að reyna ná rétta útlitinu í grófum dráttum. Misjafnt er hve margar hugmyndir þarf til áður en réttu útliti á viðfangsefni er náð. Þegar skissan hefur verið samþykkt heldur þróunarvinnan áfram þar sem listamenn og hönnuðir styðjast við skissuna og máta mismunandi hluti á viðfangsefnið. Til dæmis ef um mennska kvenkyns ofurhetju er að ræða væri hægt að máta mismunandi tegundir af hári, ofurhetjubúningum, litasamsetningu og líkama. Lokaferlið snýr að því að fínpússa viðfangsefnið og að lokum koma því yfir á það form sem hentar best við gerð leiksins.

Undirstaða listamanna og hönnuða er skapandi hugsuns og kunnátta þeirra til að þróa hugmyndir áfram og koma sínum hugmyndum á blað eða tölvutækt form. Nokkuð margir íslenskir framhaldsskólar bjóða upp á áhugavert nám þar sem listamenn og hönnuðir framtíðarinnar geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Til dæmis er Fjölbrautaskólinn við Ármúla með Nýsköpunar- og listabraut þar sem nemendur fá að velja milli tveggja lína; lista-, hönnunar- og nýsköpunarlínu eða kvikmyndalínu. Skólinn býður auk þess upp á áfanga í leikjahönnun. Menntaskólinn á Tröllaskaga býður upp á myndlistabraut þar sem nemendur geta valið á milli myndlistar, heimspeki, listasögu, listljósmyndunar o.fl. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er með sérstaka listabraut þar sem nemendur geta valið á milli þess að sérhæfa sig í textíl- og fatahönnun, leiklist eða myndlist. Borgarholtsskóli býpur upp á listnámsbraut þar sem áhersla er lögð á grafíska hönnun, kvikmyndagerð og leiklist. Hér fyrir ofan er að finna nokkru dæmi um lista- og hönnunarbrautir á framhaldsskólastigi en fleiri íslenskir skólar bjóða upp á slíkt nám og má þar nefna Verslunarskóla Íslands, Framhaldsskólann í Mosfellsbæ, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Tækniskólinn og Verkmenntaskólinn á Akureyrir svo einhverjir skólar séu nefndir.

Listaháskóli Íslands býður upp á lista- og hönnunarnám á háskólastigi auk þess sem margir erlendir háskólar bjóða upp á háskólanám þar sem fókusinn er sérstaklega tölvuleikjahönnun. Þar má meðal annars nefna norska háskólann HiNT (Høgskolen i Nord-Trøndelag). Sumir skólar sérhæfa sig í ákveðnum tegundum listar/hönnunar, þar má til dæmis nefna þrívíddarhönnun og leikjahönnun.

 

LEIKJA- OG BORÐAHÖNNUÐIR

Nokkuð flókið er að skilgreina nákvæmlega hvað leikjahönnuður gerir, þar sem hlutverk leikjahönnuða getur verið breytilegt milli fyrirtækja. Í sumum tilfellum er enginn einn leikjahönnuður heldur vinna forritarar og hönnuðir saman til þess að skapa nýjan leik. Í öðrum tilfellum eru leikjahönnuðir á staðnum og er þeirra hlutverk oftar en ekki að fókusa á leikinn í heild sinni og finna leiðir til að gera leikinn áhugaverðari eða betri og koma með nýjar og ferskar hugmyndir sem geta betrumbætt leikinn með einhverjum hætti. Eins og fyrr segir þá er hlutverk leikjahönnuða mismunandi, en leikjahönnuðir einblína gjarnan á leikreglur, hvernig leikurinn er spilaður, upplifun spilarans, markmið leiksins og aðra þætti sem geta skipt máli varðandi hönnun leiksins og þann markhóp sem leikurinn á að höfða til.

Leikjahönnuðir stjórna sjaldan öllu ferlinu og er nauðsynlegt fyrir alla sem koma að gerð leiksins að ræða reglulega saman um hugmyndir og framgang leiksins. Þess vegna skiptir miklu máli að vera góður (eða í það minnsta ófeimin/n) þegar kemur að samskiptum við samstarfsmenn.

Borðahönnuðir sérhæfa sig í að búa til borð í leiknum. Borðahönnuðir þurfa að hafa ýmislegt í huga við gerð borða í tölvuleik. Flestir leikir vilja ná hinum gullna meðalvegi í erfiðleikastigi þar sem leikurinn er ekki of erfiður (svo að spilarinn verði ekki óþolinmóður og gefist upp á endanum) og ekki heldur of auðveldur (svo að spilaranum leiðist ekki og fái þar af leiðandi leið á leiknum), og þarf borðahönnuður að hafa settar forsendur í huga. Borðahönnuðir geta meðal annars búið til þrautir sem spilarinn þarf að leysa (sbr. LittleBigPlanet) eða hindranir og óvini sem spilarinn þarf að komast fram hjá (sbr. Mario Bros. leikirnir) eða umhverfi sem spilarinn getur notfært sér með einhverjum móti í leiknum (sbr. CounterStrike).

 

TÓNLISTAR- OG HLJÓÐMENN

Það fólk sem býr til tónlistina og/eða hljóð fyrir tölvuleik kallast hljóðmenn, eða hljóðkonur. Misjafnt er eftir tölvuleikjum hvort hljóðmenn sjái um öll hljóð í leiknum eða fókusa á ákveðnar tegundir hljóða. Til dæmis getur verið sérstök hljóðdeild sem sér um öll almenn hljóð í leiknum (umhverfishljóð og hljóð í hlutum), önnur deild sem sér um talsetningu og þriðja deildin sem sér um tónlistina. Í öðrum tilfellum eru tónlistarmenn sérstaklega fengnir til að búa til tónlist fyrir tölvuleik eða að notast er við lög sem tónlistarmenn hafa nú þegar gefið út. Hermigervill hefur meðal annars séð um tónlistina fyrir spurningaleikinn QuizUp, Svavar Knútur hefur samið tónlist fyrir þrautaleikinn Prismatica og Jón Hallur Haraldsson (einnig þekktur sem RealX) samdi fjölmörg lög fyrir fjölspilunarleikinn EVE Online.

Líkt og í kvikmyndum spilar tónlist og hljóð stóran þátt í lokaútgáfu leiksins. Tónlist og hljóð í tölvuleikjum geta aukið upplifun spilarans til muna og gert innlifunina sterkari. Hvernig væri Super Mario Bros. eða Final Fantasy án tónlistarinnar? Mörg eftirminnileg hljóð ná að lifa lengi í minningu spilarans, til dæmis muna flestir eftir peningahljóðina í Mario, hljóðinu sem kemur þegar Mario klárar borð í leiknum, Hljóð og tónlist spilar mis stóran þátt í tölvuleikjum, stundum getur þögnin ein og sér hentað leiknum betur. Til dæmis eru eingöngu umhverfishljóð en engin tónlist í leiknum Limbo sem nær með þeim hætti að undirstrika þann einmannaleika sem spilarinn upplifir í gegnum söguhetju leiksins. Í öðrum leikjum er tónlistin mjög áberandi og jafnvel hluti af spilun leiksins. Til dæmis í nýlegri útgáfum af Grand Theft Auto leikjunum getur spilarinn skipt um útvarpsrásir á meðan hann er inní bíl. Í leiknum Audiosurf velur spilarinn tónlist úr sínu persónulega tónlistarsafni og spilast borðið í takt við tónlistina. Annað dæmi um hvernig tónlist getur aukið upplifun á spilun leiksins eru leikirnir 140 og Size DOES Matter þar sem tímasetning skiptir miklu máli. Takturinn í tónlist leikjanna er með þeim hætti að hann gerir það auðveldara fyrir spilarinn að bregðast við á réttum tíma þar sem spilun leiksins og tónlistartakturinn haldast í hendur.

Síðan 2009 hefur Tækniskólinn  boðið upp á 12 mánaða nám í Hljóðtækni í samvinnu við Stúdíó Sýrland. Auk þess sem boðið er upp á styttri námskeið með reglulegu millibili. Erlendis eru auk þess til margir háskólar sem sérhæfa sig í tónlistar- og hljóðupptökum.

 

ÖNNUR MIKIVÆG HLUTVERK

 

VERKEFNASTJÓRI

Til þess að leikurinn haldi tíma- og fjárhagsáætlun er nauðsynlegt að einhver sjái um verkefnastjórn. Viðkomandi heldur starfsmönnum við efnið og gætir þess að allt skipulag sé í lagi. Verkefnastjóri getur einnig verið milliliðuri þeirra sem fjármagna verkefnið og þeirra sem eru að búa til leikinn.

 

GÆÐASTJÓRI

Gæðastjóri sér til þess að gæði leiksins séu í lagi og henti settum markhópi. Nauðsynlegt er að prófa leikinn og eru leikjaprófarar gjarnan fengnir til að spila leikinn í einhvern tíma og láta vita hvað þeim fannst um hann, hver þeirra upplifun var, hvað var að virka vel og hvað illa í leiknum og láta vita af villum og koma með aðrar athugasemdir sem þeim finnst skipta máli. Gæðastjóri vinnur í framhaldinu úr þessum upplýsingur og ákveður (í samráði við aðra starfsmenn) hverju skal breyta og hvað þarf að lagfæra.

 

MARKAÐSSTJÓRI

Verkefni markaðsstjóra eru fjölbreytt en hans helsta verkefni er að láta vita af leiknum, reyna að fá fjölmiðla til að fjalla um leikinn og auglýsa leikinn á réttum stöðum. Það kostar peninga að auglýsa vöruna og skiptir einnig máli að byggja upp gott og öflugt tengslanet við fjölmiðlafólk og annað fólk með öflugt tengslanet. Góður leikur getur selst illa ef markaðurinn tekur ekki eftir honum sökum skorts á kynningarefni og auglýsingum.

 

FJÁRMÁLASTJÓRI

Fjármálastjóri sér um fjármál fyrirtækisins og gætir þess að fjármál verkefnis og fyrirtækis séu í lagi. Nauðsynlegt er að laun séu borguð út á réttum tíma, skattar séu greiddir og gott yfirlit sé yfir innkomu og útkomu verkefnis og/eða fyrirtækis.

Mynd: Shutterstock

Mynd: Shutterstock

 

 

 

 

 

Undirstaða listamanna og hönnuða er skapandi hugsuns og kunnátta þeirra til að þróa hugmyndir áfram og koma sínum hugmyndum á blað eða tölvutækt form.

 

 

 

 

Eins og fyrr segir þá er hlutverk leikjahönnuða mismunandi, en leikjahönnuðir einblína gjarnan á leikreglur, hvernig leikurinn er spilaður, upplifun spilarans, markmið leiksins og aðra þætti sem geta skipt máli varðandi hönnun leiksins og þann markhóp sem leikurinn á að höfða til.