Forsögu tölvuleikja má rekja langt aftur í aldir þar sem saga tölvuleikja er í raun brot af langri sögu leikja og spila. Leikir og spil hafa lengi verið partur af menningu mannfólksins og sýna sögulegar fornminjar að sögu leikja og spila megi rekja að minnsta kosti aftur til ársins 5.000 f.Kr og trúlega eiga leikir og spil enn lengri sögu en það. Hollenski menningarsagnfræðingurinn Johan Huizinga (d. 1945) skrifaði um tengsl manna og leikja í sögulegu og menningarlegu samhengi í bók sinni Homo Ludens. Í bókinni segir Huizinga meðal annars að leikir séu eldri en menning mannsins þar sem dýr léku sér löngu áður en mannfólkið kom til sögunnar.

 

Hollenski menningarsagnfræðingurinn Johan Huizinga (d. 1945) skrifaði um tengsl manna og leikja í sögulegu og menningarlegu samhengi í bók sinni Homo Ludens. Í bókinni segir Huizinga meðal annars að leikir séu eldri en menning mannsins þar sem dýr léku sér löngu áður en mannfólkið kom til sögunnar.

 

Eitt af elstu borðspilum mannkynssögunnar er borðspilið The Royal Game of Ur sem fannst í borginni Ur í suðurhluta Íraks snemma á 20. öld. Talið er að spilið sé u.þ.b. 4.500 ára gamalt, eða frá árinu 2.500 f.Kr., og er eintak af spilinu til sýnis í Þjóðminjasafni Bretlands í London. Ekki er vitað með vissu hverjar leikreglur spilsins voru nákvæmlega en nokkrar getgátur eru um gang spilsins. Spilið samanstendur af spilaborði með tuttugu reitum sem eru búnir til úr skeljum, fimm reitir eru með mynd af blómi, auga og kringlóttum punktum á meðan að hinir reitirnir innihalda aðrar myndir eða tákn. Talið er að The Royal Game of Ur hafi verið tveggja manna spil þar sem spilarar kepptust um að koma sínum leikmanni yfir á hinn enda spilaborðsins. Aðeins mátti hreyfa leikmenn eftir ákveðnum reglum eftir að hafa kastað teningi og tákna blómareitinir trúlega lukku eða heppni.

Mörg önnur kunnugleg spil eiga sér langa sögu og má þar nefna Backgammon, Go og skák, sem eiga sér um það bil 5.000 ára sögu. Ýmsar gerðir af skák hafa þróast í gegnum tíðina og er Hnefatafl eitt þeirra. Hnefatafl var vinsælt á landnámsöld. Ekki sé vitað með vissu hverjar leikreglurnar voru en þær reglur sem eru notaðar í dag þykja nokkuð flóknar.

Mörg vel þekkt nútíma borðspil eiga sér lengri sögu en marga grunar. Til dæmis nýtur viðskiptaspilið Monopoly enn mikilla vinsælda en það spil á rætur sínar að rekja til ársins 1930 þegar fyrsta útgáfan af spilinu var gefin út. Síðan þá hafa margar mismunandi útgáfur verið gefnar út af Monopoly og má þar nefna Star Wars útgáfu, Disney útgáfu og World of Warcraft útgáfu. Einnig er Monopoly komið yfir á stafrænt form og hægt er að spila leikinn í borðtölvum, fartölvum, spjaldtölvum og snjallsímum. Annað dæmi er herkænsku-borðspilið RISK sem kom fyrst út árið 1957 en það spil nýtur enn mikilla vinsælda í dag. Líkt og með Monopoly hafa margar útgáfur verið gefnar út af spilinu og má þar nefna The Walking Dead útgáfuna, Lord of the Rings útgáfuna, Halo útgáfuna og Transformers útgáfuna.

Kúluspil (e. pinball) nutu mikilla vinsælda á gullárum spilakassaleikja á áttunda og níunda áratugnum þar sem blikkandi ljós og grípandi hljóð spiluðu stóran þátt í útliti kúluspila og upplifun kúluspilarans. Fyrir þann tíma voru til órafmagnaðar útgáfur af kúluspilum.

 

Nolan Bushnell stofnaði tölvuleikjafyrirtækið Atari og náði í fyrsta sinn að gera tölvuleiki vinsæla meðal almennings með spilakassaútgáfu af tennisleiknum PONG árið 1972. Fyrir þann tíma hafði almenningur mjög takmarkaðan aðgang að tölvuleikjum og tölvubúnaði.

 

Nolan Bushnell stofnaði tölvuleikjafyrirtækið Atari og náði í fyrsta sinn að gera tölvuleiki vinsæla meðal almennings með spilakassaútgáfu af tennisleiknum PONG árið 1972. Fyrir þann tíma hafði almenningur mjög takmarkaðan aðgang að tölvuleikjum og tölvubúnaði. Ástæðan fyrir því var sú að heimilistölvur voru ekki búnar að ná vinsældum og þar af leiðandi fáir sem höfðu aðgang að tölvum (sem eru að sjálfsögðu nauðsynlegar til þess að spila tölvuleiki). Auk þess var úrval tölvuleikja mjög takmarkað þá og var almenningur ekki reiðubúinn til að kaupa tölvur fyrir háar upphæðir bara til þess að spila einn til tvo tölvuleiki. Nolan Bushnell stóð á bak við fyrsta tölvuleikinn sem náði almennum vinsældum, en það voru reyndar fleiri búnir að búa til tölvuleiki fyrir þann tíma.

Fyrstu tölvuleikirnir voru í raun eins konar tilraunir með tölvubúnað þar sem sérfræðingar voru að prófa sig áfram með möguleika tölvutæknibúnaðsins. Hér má til dæmis nefna eldflaugahermi Thomas T. Goldsmith Jr. frá árinu 1947, skákhermi frá sama ári, Birtie the Brain frá árinu 1950 og OXO frá 1952, sem eru báðir mylluhermar, og tennisleik William Higinbotham, Tennis for Two, frá 1958. William Higinbotham (d. 1994) var eðlisfræðingur sem starfaði hjá Brookhaven rannsóknarstofnun í Bandaríkjunum og tók meðal annars þátt í að þróa fyrstu kjarnorkusprengjuna. Einu sinni á ári var haldin opin sýning þar sem gestir fengu að kynnast starfsemi og tæknibúnað. William tók eftir því að mörgum gestum leiddist einfaldlega á sýningunni og ákvað þess vegna að búa til tveggja manna tennisleikinn Tennis for Two. Með leiknum vildi William sýna möguleika rannsóknartölvanna, og um leið skemmta gestum. Fyrr en varði voru biðraðir farnar að myndast og sífellt fleiri vildu fá að prófa leikinn. Í leiknum skjóta spilarar tennisbolta sín á milli með því að smella á takka. Sjónarhornið sýnir tennisvöll frá hlið, svo það eina sem stendur upp úr er netið sem aðskilur svæði spilaranna. Tölvan skráði engin stig og spilaði engin hljóð en margir spiluðu sinn fyrsta tölvuleik á þessari sýningu.

Tölvuleikir sem voru hannaðir á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum mátti aðeins finna í einstaka tölvum þar sem þeir voru hafðir til sýnis eða skemmtunar og þar með yfir höfuð óaðgengilegir almenningi. Tennis for Two var fyrst og fremst skemmtun fyrir sýningargesti, en það er Spacewar frá árinu 1962 sem er fyrsti fullkláraði tölvuleikurinn. Spacewar var eingöngu spilanlegur á PDP-1 tölvum sem voru mjög dýrar og plássfrekar. Á þessum tíma var tölvutæknin mun frumstæðari en við þekkjum í dag, og heill áratugur þar til fyrsta leikjatölvan kom í verslanir. Heimilistölvur voru heldur ekki komnar á almennan markað og því voru fáir með beinan aðgang að PDP-1 tölvum.

Tölvunarfræðingurinn Steve Russell (f. 1937) stóð á bakvið hugmynd og forritun Spacewar ásamt aðstoðarmanni sínum.  Frumgerð leiksins var tilbúin 1961 og var hann fullkláraður ári síðar. Steve var á þessum tíma meðlimur Teach Model Railroad Club (TMRC), sem var klúbbur ætlaður nemendum úr Massachusetts Institute of Technology (MIT) og fengu meðlimir hans fágætan aðgang að tölvubúnaði. Þegar hann sagði öðrum meðlimum frá þeirri hugmynd sinni að útbúa forrit sem myndi birtast sem gagnvirkur leikur höfðu ekki margir trú á því að verkefnið myndi ganga upp.

Í Spacewar birtust tvö geimskip á skjánum sem tveir spilarar stýrðu. Stjórna mátti í hvaða átt geimskipin skyldu halda og á hve miklum hraða, en um leið mátti skjóta á geimskip andstæðingsins. Hugmynd Steves að Spacewar má rekja til áhuga hans á vísindaskáldskap, og þá sérstaklega á Hvell-Geira (e. Doc Savage). Leikurinn var það vinsæll þegar hann var sýndur að bætt var við stigakerfi til að takmarka spilun notenda. Tölvan sem notuð var til að forrita leikinn var af gerðinni PDP-1 í eigu TMRC og var á þeim dögum þekkt sem smátölva (e. minicomputer), en var samt sem áður á stærð við tvo til þrjá ísskápa.

 

Ralph Baer, verkfræðingur hjá Sanders Associates […] er maðurinn sem stóð á bakvið fyrstu útgefnu leikjatölvuna, Magnavox Odyssey, og hefur Ralph í framhaldi þess hlotið viðurnefnið „faðir tölvuleikjanna“.

 

Ralph Baer, verkfræðingur hjá Sanders Associates (fyrirtæki sem sá um ýmis verkefni fyrir bandaríska herinn), er maðurinn sem stóð á bakvið fyrstu útgefnu leikjatölvuna, Magnavox Odyssey, og hefur Ralph í framhaldi þess hlotið viðurnefnið „faðir tölvuleikjanna“. Magnavox Odyssey kom á markað árið 1972, sama ár og PONG spilakassinn, í Bandaríkjunum og gengu 27 leikir í tölvuna, margir hverjir mjög svipaðir hverjir öðrum. Flestir leikjanna voru byggðir á tennisleik Ralph Baer þar sem bolti (stór og ferkantaður punktur) fór fram og til baka á skjánum. Spaðarnir hægra og vinstra megin á skjánum, sem leikmenn stýrðu, áttu að hitta boltann svo hann myndi ekki lenda á þeirra fleti þannig að andstæðingurinn fengi stig.

Á þessum tíma voru sjónvörp svart-hvít og var lífgað upp á leikinn með því að láta þunn, lituð plastspjöld fylgja með sem festust við sjónvarpsskjáinn. Til dæmis var plastspjaldið fyrir tennisleikinn grænt á litinn og með hvítum útlínum, líkt og er á tennisvöllum. Ekki færri en 100.000 eintök af Odyssey seldust á tveimur árum og kostaði tölvan ásamt tveimur stýripinnum og aukahlutum u.þ.b. 100 Bandaríkjadali.

Með tilkomu Magnavox Odyssey urðu leikjatölvur vinsælar í Bandaríkjunum og stuttu síðar í Evrópu. Fyrirtæki í Evrópu byrjuðu á því að herma eftir hönnun Odyssey, sem oftar en ekki mistókst illilega, og árið 1974 voru einungis fimm fyrirtæki í Evrópu sem sáu um dreifingu tölvuleikja. Margar leikjatölvur komu fram á sjónarsviðið á næstu árum og urðu nokkrar mjög vinsælar: Tandy TRS-80, Atari 2600, CBM Pet, Apple II, Philips G7000, Atari 800, Mattel Intellivision, Texas Instruments TI99/4a, Sinclair ZX 81, Commadore VC 20, CBS Colecovision, Sinclair Spectrum, C64 og Atari 5200 voru þar á meðal.

Á þessum tíma voru sjónvörp nýlega búin að ná vinsældum og voru nú til á flestum heimilum í hinum vestræna heimi. Markhópur leikjatölva voru sjónvarpseigendur sem höfðu áhuga á slíkri afþreyingu. Af ofangreindum leikjatölvum náðu Atari 2600 og C64 að seljast einstaklega vel. Margar gerðir leikjatölva seldust í milljónum eintaka en komust þó ekki nálægt sölutölum Atari 2600 og C64. Atari 2600 seldist í um það bil 30 milljónum eintaka og voru gefnir út um 500 leikir. Það var ekki hætt að framleiða leiki á þessa vinsælu vél fyrr en 15 árum eftir útgáfu hennar, eða árið 1992. Salan fór hægt af stað hjá Atari, en hún óx jafnt og þétt.

Nolan Bushnell sá viðskiptamöguleika í tölvuleikjum og færði Spacewars og PONG yfir á spilakassa þar sem spilarar settu klink í kassann til að spila leikina. PONG spilakassinn, sem þá mátti finna víðsvegar á börum, malaði gull og notaði Nolan þann pening til að fjármagna fyrsta þekkta leikjatölvu- og tölvuleikjafyrirtækið, Atari, árið 1972. Leiðbeiningar PONG voru einfaldar:

 

– Settu inn klink
– Boltinn birtist sjálfkrafa
– Forðastu að hitta ekki boltann til að safna stigum

 

PONG var einfaldur í spilun, en um leið gat verið erfitt að ná að verða mjög góður í honum, og því voru margir sem höfðu gaman af því að spila hann upp á þá áskorun. Bushnell sagði að „All the best games are easy to learn and difficult to master.“ Margir leikjahönnuðir og leikjafyrirtæki, þar á meðal Blizzard leikjafyrirtækið (Hearthstone, World of Warcraft), hafa fylgt þessari reglu sem er gjarnan kölluð „Bushnell’s Law“, eða „lögmál Bushnells“. Þetta þýðir að nánast hver sem er getur byrjað að spila leikinn, en það tekur tíma, erfiði og hæfileika til að verða virkilega góður í honum.

PONG svipaði að mörgu leyti til tennisleiks Ralph Baers fyrir Magnavox Odyssey sem endaði í málaferli, þar sem Magnavox stefndi Atari og öðrum tölvuleikjafyrirtækjum sem byggðu á sömu hugmynd að tennisleik. Ákveðið var að sættast utan dómsals þar sem Atari borgaði Magnavox tæpa eina milljón Bandaríkjadala fyrir réttinn á leikjahugmyndinni.

royal-game-of-ur

The Royal Game of Ur. Mynd: Wikimedia Commons.

 

Spila The Royal Game of Ur í vafra.

 

ZHNEFA

Hnefatafl. Mynd: Wikimedia Commons.