Árið 1983 varð hrun í leikjatölvuiðnaðinum í Bandaríkjunum. Sífellt fleiri fyrirtæki hönnuðu og gáfu út leikjatölvur og tölvuleiki, sem orsakaði offramboð á misgóðum leikjatölvum og tölvuleikjum. Tölvuleikjafyrirtæki framleiddu hundruði leikjatitla á skömmum tíma þar sem gæði leikjanna urðu að aukaatriði. Um leið og gæði leikja minnkuðu gerðu notendur hærri gæðakröfur í garð tölvuleikja og vildu betri og flottari leiki en áður. Verð á leikjatölvum bætti ekki úr skák en það varð sífellt hærra og á sama tíma lækkaði verð á heimilistölvum. Þetta varð til þess að sala á leikjatölvum og leikjum minnkaði verulega og vinsældir heimilistölva fóru að aukast. Heimilistölvur voru nú komnar á viðráðanlegt verð og buðu tölvunotendum upp á fjölda gagnlegra forrita og úrval tölvuleikja. Heimilistölvur náðu vinsældum við lok 8. áratugarins og byrjun 9. áratugarins og sífellt fleiri heimili fjárfestu í heimilistölvu.

 

Árið 1983 varð hrun í leikjatölvuiðnaðinum í Bandaríkjunum. Sífellt fleiri fyrirtæki hönnuðu og gáfu út leikjatölvur og tölvuleiki, sem orsakaði offramboð á misgóðum leikjatölvum og tölvuleikjum.

 

Tölvutæknin og leikjaiðnaðurinn þróuðust ört á skömmum tíma. Litum fjölgaði í leikjum og grafíkin varð betri. Innra minni varð að sjálfsögðum hlut í leikjatölvum, fleiri og fleiri leikjatitlar voru gefnir út og margar týpur af leikjatölvum með mismunandi eiginleikum. Tölvuleikir voru gefnir út í mismunandi formum; spólum, litlum kubbum og kortum – fór það fyrst og fremst eftir því fyrir hvaða tölvu leikurinn var ætlaður. Um það leyti sem hrunið átti sér stað urðu heimilistölvur vinsælli og dró verulega úr sölu á leikjatölvum og tölvuleikjum þar sem notendur sóttust eftir meiri fjölbreytileika í tölvum. Eftir hrun leikjatölvuiðnaðarins komu út leikjatölvur sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á leikjatölvur og tölvuleiki framtíðarinnar og kom fyrirtækið Nintendo þar sterkt inn.

Almenningur sýndi tölvuleikjum minni áhuga en áður í kjölfar tölvuleikjahrunsins árið 1983. Japanska tölvuleikjafyrirtækið Nintendo hafði mikil áhrif á leikjaiðnaðinn og endurvakti hann úr svefni árið 1985 með tilkomu NES (stytting á Nintendo Entertainment System) árið 1985 í Bandaríkjunum, en japanska útgáfan kom á japanskan markað árið 1983 undir heitinu Famicom (stytting á Family Computer Disk System). Hrun iðnaðarins varð til þess að mörg leikjafyrirtæki þurftu að snúa sér frá iðnaðinum sökum peningaskorts og opnaðist því rúm fyrir ný fyrirtæki.

 

Leikjatölvan Famicom kom út í Japan 1983 og þóttu Nintendo djarfir í hönnun hennar, t.d. voru stjórntæki leikjatölvunnar allt öðrvísi en fólk hafði áður vanist.

 

Nintendo hafði áður gefið út Game & Watch sem var ferðatölvuspil með innbyggðum leikjum. Leikjatölvan Famicom kom út í Japan 1983 og þóttu Nintendo djarfir í hönnun hennar, t.d. voru stjórntæki leikjatölvunnar allt öðrvísi en fólk hafði áður vanist. Tvö stjórntæki fylgdu vélinni sem voru með sína séreiginleika. Stjórntæki nr. I var sú týpa sem flestir þekkja í dag, flatt stjórntæki með tveimur aðgerðartökkum og átta-stýringu (e. directions). Stjórntæki nr. II var með hljóðnema og gat spilarinn hrætt burt skrímsli með því að öskra í hann í tölvuleiknum The Legend of Zelda (1986). Í japanska leiknum Takeshi no Chōsenjō (1986) var spilarinn beðinn um að syngja í hljóðnemann. Slík notkun á hljóðnema þekktist ekki í tölvuleikjum á ný fyrr en mörgum árum síðar. Jafnvel útlit tölvunnar var djarft og óhefðbundið, hún var hvít og rauð með gylltum skreytingum. Nintendo Famicom var einungis fáanleg í Japan og hafði selst þar í mörgum milljónum eintaka, árið 1985 kom leikjatölvan á bandarískan og evrópskan markað og fékk nafnið; Nintendo Entertainment System, eða NES. Útliti tölvunnar var breytt fyrir nýjan markað – grá og svört með rauðu ívafi. Dreifing og vinsældir NES varð til þess að hún varð að söluhæstu leikjatölvunni á þeim tíma. Margir leikir NES eru enn vel þekktir í dag, t.d. Super Mario Bros. (1985), Castlevania (1986), The Legend of Zelda (1986) og Final Fantasy (1987). Aðalhetja leiksins Super Mario Bros. var pípari að nafni Mario, fenginn úr Nintendo spilakassaleiknum Donkey Kong (1981). Píparinn Mario varð að lukkudýri Nintendo og þeirra sérkenni, og er hann það enn þann dag í dag.

 

Spilakassaframleiðandinn Sega gaf út fyrstu leikjatölvuna sína, Sega SG-1000, í Japan árið 1983. Þessi leikjatölva var fjórum árum síðar seld í vestrænum löndum undir nafninu Sega Master System.

 

Spilakassaframleiðandinn Sega gaf út fyrstu leikjatölvuna sína, Sega SG-1000, í Japan árið 1983. Þessi leikjatölva var fjórum árum síðar seld í vestrænum löndum undir nafninu Sega Master System. Ólíkt Nintendo þá breytti Sega tölvunni lítið sem ekkert áður en hún kom á vestrænan markað og komu síðar ýmsir svæðistengdir gallar í ljós, þar á meðal hljóðgallar. Leikjatölvan seldist ekki nærri því jafn vel og NES og var leikjaúrval Master System langt frá því að ná úrvali Nintendo, en í Master System mátti finna um 300 leikjatitla á móti tvöföldu til þreföldu leikjaúrvali í NES. Næstu árin var samkeppnin hörð milli Sega og Nintendo og reyndu fyrirtækin margt til að toppa hvort annað.

Nintendo og Sega voru með markaðinn í höndum sér á meðan önnur leikjatölvu- og tölvuleikjafyrirtæki reyndu hvað þau gátu til að ná góðum sölutölum. Þar má helst nefna leikjatölvurnar Amstrad CPC 464 (1984), Atari ST (1985), Commodore Amiga (1985) og NEC PC-Engine (1987). Auk þess komu heimilistölvurnar sterkar inn á þessum tíma, IBM PC/AT árið 1984 og Apple Machintosh sama ár. Engin leikjatölva náði jafn miklum vinsældum og vélarnar frá Nintendo og Sega sem seldust í milljónatali. Það var í rauninni ekki fyrr en risarnir tveir, Nintendo og Sega, komu með næstu kynslóð leikjatölva, sem voru þá 16-bita (kynslóðin á undan var 8-bita), sem sölutölur náðu eldri metum.

Við lok níunda áratugarins komu 16-bita leikjatölvur sem voru mun hraðvirkari og skiluðu frá sér betri grafík og hljóðgæðum. Vinsælustu 16-bita leikjatölvurnar voru Sega Mega Drive frá 1988 og SNES (Super Nintendo Entertainment System) sem kom út þremur árum síðar. Þrátt fyrir miklar vinsældir NES og Nintendo seldist Sega Mega Drive mun betur en SNES vegna þess hversu snemma hún kom á markað. Auk þess tilkynnti Sega árið 1991 sitt nýja lukkudýr, Sonic, sem var blár broddgöltur sem hljóp um á miklum hraða og var með djarfa framkomu, ólíkt píparanum Mario sem hreyfði sig hægar og var mun vingjarnlegri (og mögulega barnalegri) í framkomu.

 

Heldur lítið fór fyrir handheldum leikjatölvum þar til 1989 þegar Nintendo skaut Game Boy inn á markað. Game Boy var ferðafélagi tölvuleikjaspilarans og var hægt að taka með sér hvert sem er.

 

Heldur lítið fór fyrir handheldum leikjatölvum þar til 1989 þegar Nintendo skaut Game Boy inn á markað. Game Boy var ferðafélagi tölvuleikjaspilarans og var hægt að taka með sér hvert sem er. Nintendo hertók handhelda leikjatölvumarkaðinn og þegar sambærilegar tölvur komu frá Atari (Lynx 1989) og Sega (Game Gear 1990) var lítil sem engin von um að ná vinsældum Game Boy. Nintendo gaf út leiki í Game Boy sem höfðu áður slegið í gegn á NES og varð leikurinn Tetris (1989) einn sá vinsælasti. Vegna þess hve vinsæl tölvan varð komu út nokkrar útgáfur af henni með mismunandi áherslum.

Hröð þróun hélt áfram í heimi leikjatölvunnar. 16-bita leikjatölvur buðu upp á betri grafík og meiri hraða en áður þekktist. Tölvuleikir voru enn nokkuð frumstæðir og einfaldir í hönnun og spilun, en geisladiskar margfölduðu síðar möguleika tölvuleikja og breyttu þar með leikjatölvu- og tölvuleikjaheiminum. Fyrirtækin fóru að einbeita sér að geisladiskum fyrir næstu kynslóð leikjatölva. Á árunum 1991-1993 komu nokkrar leikjatölvur á markað en engin þeirra komast með tærnar þar sem Nintendo og Sega voru með hælana.

Mynd: Wikimedia Commons (taylorhatmaker)

Mynd: Wikimedia Commons (taylorhatmaker)

 

Famicom_wc

Mynd: Wikimedia Commons (Evan-Amos)

 

 

Spila Game&Watch leiki á Pica Pic

 

Mynd: Wikimedia Commons (Evan-Amos)

Mynd: Wikimedia Commons (Evan-Amos)