Flokkunarkerfi eru notuð til þess að einfalda leit efnis. Ólíkt kvikmyndum, þar sem algengt er að flokka myndir eftir söguþræði (gamanmyndir, dramamyndir, spennumyndir o.s.frv.) þá eru tölvuleikir oft flokkaðir eftir leikreglum og spilun. Til dæmis flokkast tölvuleikur sem skotleikur óháð því hvort leikurinn sé fullur af hasar á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar eða ástarsaga á fjarlægri plánetu í fantasíuheimi. Jafnvel er hægt að flokka þrautleikinn Portal (2007) sem skotleik þrátt fyrir að spilarinn skýtur ekki eina manneskju í leiknum, heldur notar byssuna til þess að leysa þrautir. Annað dæmi um leikjaflokk eru pallaleikir (e. platform games), einnig kallaðir hopp- og skoppleikir. Super Mario Bros. (1985-) leikirnir eru flokkaðir sem pallaleikir líkt og Earthworm Jim (1994), Castlevania: Symphony of the Night (1997), Banjo-Kazooie (1998) og Jazz Jackrabbit (1994), þrátt fyrir að sögusvið leikjanna er gjörólíkt, þar sem að leikreglur og uppbygging þessara leikja eru með mjög svipuðum hætti.

Hér verður farið yfir nokkra mismunandi tölvuleikjaflokka og nokkur af einkennum þeirra. Tekið skal fram að mörg mismunandi flokkunarkerfi eru notuð til að flokka og skilgreina leiki, hér verður stuðst við flokkunarkerfið sem Kate Berens og Geoff Howard notuðu í bókinni The Rough Guide to Videogaming (2001), þar sem leikjum er skipt í sjö flokka; hasar- og ævintýraleiki (e. action and adventure), bíla- og kappakstursleiki (e. driving and racing), fyrstu persónu skotleiki (e. first-person shooters), palla- og þrautaleiki (platform and puzzle), hlutverkaleiki (roleplaying), herma og herkænskuleiki (e. strategy and simulation) og íþrótta- og bardagaleiki (e. sports and beat-’em-ups). Þessir sjö flokkar ná yfir flesta tölvuleiki en alltaf eru til leikir sem getur verið erfitt að flokka vegna sérkenna. Athugið að marga tölvuleiki má flokka í fleiri en einn leikjaflokk.

 

BÍLA- OG KAPPAKSTURSLEIKIR

Margir bíla- og kappakstursleikir ýkja upplifun raunveruleikans með því að búa til umhverfi og aðstæður sem þykja óraunverulegar – en skemmtilegar. Dæmi um slíka bílaleiki eru Stunts (1990), Burnout leikjaserían (2001-), Carmageddon (1997) og Trials leikjaserían (2000-). Aðrir bíla- og kappaksturleikir nálgast efnið út frá raunveruleikanum og eru samblanda bíla- og kappakstursleikja annars vegar og hermi hins vegar. Slíkir leikir stefna að því að hafa hlutina sem raunverulegasta að hverju sinni. Forza leikjaserían (2005-) og Gran Turismo (1997-) eru meðal slíkra leikja. Margir tölvuleikir sem byggja á þekktum akstursíþróttum reyna gjarnan að vera raunverulegir á meðan frjálsari leikir byggja á ýktari aðstæðum eða fantasíu.

 

Yfirleitt getur spilarinn valið á milli fyrstu persónu og þriðju persónu sjónarhorna. Í fyrstu persónu sjónarhorni horfir spilarinn út um framrúðu ökutækis líkt og hann sjálfur sé ökumaðurinn. Fyrir framan hann er stýrið, speglar, hraðamælir og annar búnaður, til dæmis gírar snúningsmælir og fleira. Í þriðju persónu sjónarhorni horfir spilarinn yfir bílin frá bakhlið bílsins svo hann sjái það sem framundan er.

 

Yfirleitt getur spilarinn valið á milli fyrstu persónu og þriðju persónu sjónarhorna. Í fyrstu persónu sjónarhorni horfir spilarinn út um framrúðu ökutækis líkt og hann sjálfur sé ökumaðurinn. Fyrir framan hann er stýrið, speglar, hraðamælir og annar búnaður, til dæmis gírar snúningsmælir og fleira. Í þriðju persónu sjónarhorni horfir spilarinn yfir bílin frá bakhlið bílsins svo hann sjái það sem framundan er.

Leikjaflokkur bíla- og kappakstursleikja inniheldur ekki eingöngu bílaleiki. Flokkurinn nær einnig yfir mótorhjólaleiki, torfæruleiki, flugleiki og fleira þar sem keppt er um að ná sem bestum tíma eða sem flestum stigum. Flokkurinn nær einnig yfir geimkappakstursleiki á borð við Star Wars Episode I: Racer (1999) og Destruction Derby (1995) þar sem markmiðið er að lifa af keppnina og um leið klessa á keppinauta.

Ýmsir aukahlutir eru fáanlegir fyrir bíla- og kappakstursleiki, þar á meðal stýri, gírar og pedalar sem spilarinn getur notað sem stjórntæki í leiknum í stað lyklaborðs eða leikjafjarstýringar. Sambærilegur búnaður er einnig til fyrir flug- og mótorhjólaleiki.

 

FYRSTU PERSÓNU SKOTLEIKIR

Fyrstu persónu skotleikir hafa notið gríðarlegra vinsælda undanfarin ár. Með útgáfu Wolfenstein 3D árið 1992 urðu fyrstu persónu skotleikir fyrst vinsælir. Ári síðar kom Doom á markaðinn og gerði leikjaflokkinn enn vinsælli. Fjöldi fyrstu persónu skotleikja kemur út á ári hverju og komast yfirleitt margir þeirra á topplista yfir mest seldu leiki ársins. Þar má nefna þekktar leikjaseríur á borð við Call of Duty (2003-), Halo (2001-), Half-Life (1998-2007), Counter-Strike (1999-), Bioshock (2007-), Battlefield (2002-) og Far Cry (2004-).

 

Fyrstu persónu skotleikir eru skotleikir sem eru spilaðir í fyrstu persónu, það er að segja spilarinn sér leikinn frá sjónarhorni aðalpersónunnar. Í raun má segja að spilarinn sé aðalpersónan.

 

Fyrstu persónu skotleikir eru skotleikir sem eru spilaðir í fyrstu persónu, það er að segja spilarinn sér leikinn frá sjónarhorni aðalpersónunnar. Í raun má segja að spilarinn sé aðalpersónan. Það sem birtist á skjánum er það sem aðalpersónan (og spilarinn) sér en auk þess er algengt að upplýsingar um skotvopn, byssukúlufjölda og heilsu persónunnar séu sýnilegar í notendaviðmóti leiksins. Fyrstu persónu skotleikir eru gjarnan spilaðir með leikjafjarstýringu eða lyklaborði og tölvumús þar sem takkar á lyklaborðinu eru notaðir til þess að hreyfa leikjapersónuna um á meðan músin er notuð til þess að skjóta og líta í kringum sig.

Algengt er að fyrstu persónu skotleikir séu bannaðir börnum þar sem markmið leikjanna er yfirleitt að skjóta andstæðinga sína. Margir þekktir viðburður úr Fyrri og Seinni heimsstyrjöldinni hafa verið endurgerðir í formi fyrstu persónu skotleikja, þannig að spilarinn fær að upplifa og taka beinan þátt í sögulegum orrustum. Aðrir leikir á borð við Doom (1993), Half-Life (1998) og Bioshock (2007) gerast í ímynduðum heimi þar sem spilarinn kemst í snertingu við óvini, umhverfi og vopn sem hann hefur aldrei séð áður. Þó mikill meirihluti fyrstu persónu skotleikja séu ofbeldisfullir er það ekki algild regla. Í fyrstu persónu skotleiknum Portal (2007) notar leikjapersónan byssu til þess að stytta sér leið á milli tveggja staða. Sem dæmi, ef skotið er skoti A upp í loftið á herbergi og skoti B í vegg þá getur leikjapersónan gengið inn um gat B á veggnum og gengið út um gat A í loftinu. Þessar gáttir notar spilarinn til að leysa þrautir í leiknum og komast fram hjá óvinum.

Á meðan sumir fyrstu persónu skotleikir leggja áherslu á söguþráð leiksins og eins manns spilun (e. single player) þá eru aðrir leikir sem einblína á fjölspilunarmöguleikann. „Deathmatch“ er ein af vinsælli leikjategundum fjölspilunarleikja í fyrstu persónu skotleikjum. Þar keppa spilarar sín á milli um að drepa sem flesta andstæðinga og á sama tíma passa sig að verða ekki skotnir af öðrum. Oft er hægt að velja á milli þess að spila einn þar sem allir eru á móti öllum eða með öðrm í liði þar sem lið berjast gegn hvor öðru. Það var fyrsti Doom leikurinn sem kynnti netspilun í fyrstu persónu skotleikjum til sögunnar en fjölspilunin náði fyrst almennilegum vinsældum með útgáfu Quake (1996) og síðar Unreal (1998).

 

HASAR- OG ÆVINTÝRALEIKIR

Einn stærsti og breiðasti tölvuleikjaflokkurinn er flokkurinn hasar- og ævintýraleikir. Í þessum flokki má finna fjöldan allan af stórleikjum og tölvuleikjaseríum sem hafa náð miklum vinsældum í gegnum tíðina. Benda-og-smella-leikir (e. point-and-click) og að-lifa-af-leikir (e. survival game) eru algengar tegundir spilunar og frásagnar í þessum flokki.

 

Benda-og-smella-leikir eru leikir þar sem spilarinn notar músarbendilinn á tölvuskjánum (eða snertiskjá) til að smella á hluti og persónur í leiknum. Benda-og-smella-leikir náðu miklum vinsældum í lok níunda og allan tíunda áratug seinustu aldar þegar tölvuleikjafyrirtækið LucasArt gaf út leiki á borð við Maniac Mansion (1987), Indiana Jones and the Last Crusade: The Graphic Adventure (1989), Monkey Island leikjaseríuna (1990-), Indiana Jones and the Fate of Atlantis (1992), Day of the Tentacle (1993), Sam & Max: Hit the Road (1993), Full Throttle (1995), The Dig (1995) og Grim Fandango (1998).

 

Benda-og-smella-leikir eru leikir þar sem spilarinn notar músarbendilinn á tölvuskjánum (eða snertiskjá) til að smella á hluti og persónur í leiknum. Benda-og-smella-leikir náðu miklum vinsældum í lok níunda og allan tíunda áratug seinustu aldar þegar tölvuleikjafyrirtækið LucasArt gaf út leiki á borð við Maniac Mansion (1987), Indiana Jones and the Last Crusade: The Graphic Adventure (1989), Monkey Island leikjaseríuna (1990-), Indiana Jones and the Fate of Atlantis (1992), Day of the Tentacle (1993), Sam & Max: Hit the Road (1993), Full Throttle (1995), The Dig (1995) og Grim Fandango (1998). Benda-og-smella-leikir eru yfirleitt hægir í spilun þar sem spilarinn þarf tíma til að leysa þrautir, rannsaka umhverfið og spjalla við þær persónur sem á vegi hans verða.

Íslenski tölvuleikurinn Tímaflakkarinn frá árinu 1998 er benda-og-smella ævintýraleikur þar sem spilarinn stjórnar Denna í tímaflakki. Hann ferðast aftur í fjögur sögusvið í Íslandssögunni: Landnám Ingólfs, kristnitöku, siðaskiptin og Tyrkjaránið. Í leiknum hittir spilarinn söguþekktar persónur á borð við Ingólf Arnarson og ræðir við þær um þá sögulegu atburði sem eiga sér stað. Spilarinn þarf einnig að leysa ýmis vandamál og er þá nauðsynlegt að skoða umhverfi leiksins, rannsaka hluti og tala við aðrar leikjapersónur. Fleiri benda-og-smella-leikir sem náðu vinsældum eru meðal annars The Journeyman Project (1993), Broken Sword (1996-) og Blade Runner (1997). Það má segja að gullöld benda-og-smella-leikja hafi verið við lok níunda áratugarins og meirihluta tíunda áratugarins. Benda-og-smella-leikir birtast þó enn þann dag í dag með reglulegu millibili og eru nýleg dæmi um slíka leiki sem hafa náð vinsældum t.d. leikir á borð við Broken Age sem var gefinn út í tveimur hlutum árin 2014 og 2015. Leikurinn var hópfjármagnaður í gegnum Kickstarter og kom Tim Schafer að gerð leiksins en hann kom einnig að gerð margra þekktra LucasArt benda-og-smella-leikja sem voru gefnir út fyrir seinustu aldarmót.

 

Önnur tegund frásagnar í hasar- og ævintýraleikjum náði vinsældum með Resident Evil (1996-) hryllingsleikjunum, en hryllingsleikir eru einn af mörgum undirflokkum hasar- og ævintýraleikja.

 

Önnur tegund frásagnar í hasar- og ævintýraleikjum náði vinsældum með Resident Evil (1996-) hryllingsleikjunum, en hryllingsleikir eru einn af mörgum undirflokkum hasar- og ævintýraleikja. Resident Evil leikirnir hafa sótt margt til kvikmynda. Sem dæmi má nefna fast sjónarhorn þar sem spilarinn sér yfir aðalpersónuna og gengur um drungaleg herbergi og fær ekki að vita hvað leynist handan við hornið fyrr en hann lætur aðalpersónuna ganga áfram. Margir eldri Resident Evil leikir notast við slík föst skot en í dag tíðkast að spilarinn fái frelsi til að breyta sjónarhorninu sjálfur í stað þess að notast við föst sjónarhorn þar sem leikjahönnuðir ákváðu hvernig spilarinn myndi sjá umhverfið (líkt og í kvikmyndum). Í Resident Evil og fleiri hasar- og ævintýraleikjum, þar á meðal Metal Gear Solid (1998-), er ákveðið jafnvægi á milli hasar (skjóta og berjast við óvini) og þrauta (að læðast framhjá og forðast hættur).

Algengt er að notast sé við þriðju persónu sjónarhorn í hasar- og ævintýraleikjum. Vanalega sést í bakhlið aðalpersónunnar svo spilarinn sér betur hvað framundan er. Í mörgum þrívíddarleikjum getur spilarinn breytt sjónarhorninu og þannig séð persónuna og umhverfið frá mismunandi sjónarhornum. Hasar- og ævintýraleikir eru gjarnan brotnir upp með birtingu stuttra myndbrota (e. cut-scenes) sem fleyta söguþræði leiksins áfram. Þegar spilarinn er búinn að yfirbuga óvini eða leysa þrautir birtast þessi myndbrot og má segja að þau bæði fleyti söguþræði leiksins áfram og séu umbun fyrir spilarinn fyrir að hafa komist áfram í leiknum. Hitman (2000-), Tomb Raider (1996-) og Gears of War (2006-) eru meðal þeirra fjölmörgu hasar- og ævintýraleikja sem notast við þriðju persónu sjónarhornið.

Líkt og margir hlutverkaleikir þá notast margir hasar- og ævintýraleikir við hjakk- og högg aðferðina (e. hack and slash) sem leið til frásagnar og spilunar. Leikir á borð við DmC: Devil May Cry (2013), God of War (2005-) og Bayonetta (2010) spilast sem hjakk- og höggleikir. Í slíkum leikjum er mikið notast við takkahömrun (e. button mashing) þar sem spilun leiksins gengur mikið út á að ýta oft og mörgum sinnum á takka til að sigra andstæðinga sína í bardögum. Með tímanum verða bardagarnir yfirleitt umfangsmeiri og leikjapersónan lærir ný og flóknari brögð, en spilunin gengur að miklu leyti út á það sama; að hamra hratt á stjórntökkunum.

Hasar- og ævintýraleikir geta verið hægir og hraðir í spilun þrátt fyrir að orðið hasar gefi til kynna að leikurinn sé hraður í spilun. Sem dæmi má nefna leikina Final Fantasy VII (1997) og Asura’s Wrath (2012) sem má flokka sem hasar- og ævintýraleiki. Í báðum leikjunum koma kaflar þar sem mikið er að gerast (til dæmis stórir bardagar) en spilunin er í sjálfu sér nokkuð hæg miðað við það sem er að gerast á skjánum. Í Final Fantasy VII fær spilarinn góðan tíma til að hugsa sig um og ákveða næstu hreyfingu í bardaga. Í Asura’s Wrath berjast risaguðir sín á milli í ótrúlega stórum bardögum en það eina sem spilarinn þarf að hafa áhyggjur af er að ýta á rétta takka á réttum tíma þar sem leikurinn byggist að miklu leyti á slíkri spilun (eða quick time event (QTE)). Með því að ýta á aðeins örfáa takka á réttum tíma getur spilarinn látið tugi kröftugra högga dynja á óvininum svo hann kastast marga kílómetra í burtu.

 

HERMAR OG HERKÆNSKULEIKIR

Hermar (simulation) herma eftir raunverulegum eða ímynduðum aðstæðum. Sem dæmi er hægt að fljúga flugvél sem byggir á raunverulegri gerð flugvélar um landsvæði sem eru einnig eru til í raunveruleikanum. Þeir hermar sem byggja á raunveruleikanum eru gjarnan notaðir til að þjálfa viðbrögð fólks í ákveðnum aðstæðum. Hér má nefna dæmi um Microsoft Flight Simulator hermana (1982-2006) og formúlu 1 herminn F1 2015 (2015). Hermar þurfa þó ekki endilega að herma eftir raunveruleikanum heldur geta hermar einnig hermt eftir ímynduðum aðstæðum í ímynduðum heimi. The Sims leikjaserían (2000-) eru hermar sem byggja á ímynduðum heimi þar sem spilarinn stjórnar „sims-fólki“. „Sims-fólk“ er í raun mannfólk sem er sett fram á ýktan og gamansaman hátt. Til dæmis þarf spilarinn að að sinna grunnþörfum „sims-fólksins“, þar á meðal að láta þau fara á klósettið (svo þau pissi ekki í buxurnar), þrífa sig (svo þau verði ekki skítug), borða (svo þau verði ekki svöng) og sofa (svo þau verði ekki þreytt). Ef þessar þarfir eru ekki uppfylltar verður „sims-fólkið“ óhamingjusamt. „Simsarnir“ eru tilfinningaverur sem geta orðið sorgmæddar, ástfangnar, glaðar og reiðar, allt fer það eftir því hvaða ákvarðanir spilarinn tekur. Viðbrögð þeirra eru sett fram á gamansaman hátt til að gera leikinn áhugaverðari og skemmtilegri. Önnur þekkt dæmi um herma eru leikir á borð við Sim-City leikjaserían (1989-), DayZ (alpha 2013), Cities Skylines (2015), Civilization leikjaserían (1991-), Football Manager leikjaserían (2004-) og Kerbal Space Program (2015). Einnig eru til hermar sem gera sérstaklega út á það að búa til stórlega ýktar aðstæður öðrum til skemmtunar. Hér má nefna leiki á borð við Enviro-Bear 2000 (2009), Surgeon Simulator (2013) og Goat Simulator (2015) þar sem spilarinn stjórnar geit.

 

Herkænskuleikir (e. real-time strategy, eða RTS) eru leikir þar sem spilarinn þarf að beita herkænsku. Spilarinn þarf að plana fram í tímann og vera undirbúinn óvinum og því óvænta.

 

Herkænskuleikir (e. real-time strategy, eða RTS) eru leikir þar sem spilarinn þarf að beita herkænsku. Spilarinn þarf að plana fram í tímann og vera undirbúinn óvinum og því óvænta. Í herkænskuleikjum byrjar spilarinn oft með fáa hluti og þarf að safna hlutum (til dæmis viði, bergi eða mat) til þess að byggja fleiri hús, þjálfa fleiri hermenn og leggja rækt við menntun, vísindi og trúarbrögð til þess að samfélagði hans þróist. Í herkænskuleikjum þarf spilarinn oftar en ekki að þjálfa hermenn og mynda herdeildir sem síðar ráðast á andstæðingana eða verjast gegn þeim. Dæmi um vinsæla herkænsluleiki eru Dungeon Keeper (1997), Warcraft III (2002), Age of Mythology (2002) og StarCraft II (2010).

 

HLUTVERKALEIKIR

Hlutverkaleikir (e. RPG, eða roleplaying) er stór leikjaflokkur. Í hlutverkaleikjum stjórnar spilarinn persónu (eða persónum) í fantasíuheimi. Leikirnir virka á margan hátt með svipuðum hætti og hlutverkaspil á borð við Dungeons & Dragons þar sem ákveðin bardagakerfi eru til staðar og persónur í leiknum geta orðið sterkari með tíma og reynslu. Hlutverkaleikir innihalda gjarnan umfangsmikinn fantasíuheim sem aðalpersóna (eða persónur) leiksins getur kannað og farið á vit ævintýranna eða jafnvel búið til sitt eigið ævintýri. Dæmi um vinsæla hlutverkaleiki eru The Legend of Zelda (1986-), Diablo (1996-), Final Fantasy (1987-), Pokémon (1996-), Fallout (1997-), Elder Scrolls (1994-), World of Warcraft (2004-) og EVE Online (2003-). Margir eldri hlutverkaleikir eru uppbyggðir sem texta-ævintýri þar sem tölvugrafík var mjög takmörkuð. Í slíkum leikjum var sögunni og umhverfinu í leiknum að mestu lýst með texta og í einföldum myndskreytingum. Í dag eru vinsælustu hlutverkaleikirnir í þrívídd og innihalda yfirleitt gríðarlega stóra leikjaheima sem getur tekið tugi klukkutíma að kanna og inniheldur verkefni sem tekur hundruði klukkutíma að klára. Í mörgum hlutverkaleikjum getur spilarinn haft áhrif á leikjapersónuna með því að velja hvert reynslustigin (e. experience points, eða XP) renna á hæfileikaskala persónunnar.

Þar sem hlutverkaleikir gerast oftar en ekki í opnum heimum bjóða margir slíkir leikir upp á frjálst val þar sem spilarinn er ekki skyldugur til þess að spila sig í gegnum línulegan söguþráð, heldur fær hann tækifæri til þess að velja sínar eigin leiðir og ákveða sín eigin örlög. Vinsælustu fjölspilunarleikirnir eru hlutverkaleikir. Á meðan eins manns (e. single player) hlutverkaleikir á borð við The Legend of Zelda og Fallout sem hafa byrjun og endi, eru fjölspilunarleikirnir sífellt í gangi og taka í raun engan enda (eða ekki fyrr en spilarinn ákveður það sjálfur). Áskrifendur World of Warcraft skipta milljónum og komst leikurinn meðal annars í heimsmetabók Guinness fyrir flesta áskrifendur en þeir voru yfir 10 milljón árið 2008. Slíkir leikir taka seint enda á meðan þeir haldast vinsælir þar sem leikjafyrirtækið fær áskriftarpening frá spilurum til að viðhalda leiknum og búa til aukapakka sem eru gefnir út með reglulegu millibili. Í slíkjum fjölspilunarleikjum geta spilarar kynnst öðrum spilurum og velja sjálfir hvernig þeir verja tíma sínum í leiknum. Sumir spilarar þrá fyrst og fremst að berjast og styrkja leikjapersónuna sína á meðan aðrir vilja skoða sig um eða kynnast nýju fólki. Sterk vinasambönd geta myndast í gegnum fjölspilunar hlutverkaleiki á borð við World of Warcraft og EVE Online og er hin árlega EVE Fanfest sem haldin er á Íslandi dæmi um slíkt, en þar ferðast spilarar landanna á milli til þess að hitta félaga sína úr leiknum, aðra spilara og starfsmenn CCP sem kynna það helsta úr fortíð og framtíð EVE-heimsins.

 

ÍÞRÓTTA- OG BARDAGALEIKIR

Þeir leikir sem byggja á íþrótt eða bardagalist eiga heima í þessum flokki. Íþrótta- og bardagaleikir eru allt frá árlegum Ólympíutölvuleikjum og FIFA fótboltaleikjum (1993-) yfir í Mortal Kombat bardagaleiki (1992-) og SSX snjóbrettaleiki (2000-). Vinsælustu leikirnir í þessum flokki eru leikir á borð við fótboltaleikina FIFA (1993-), NBA 2K (1999-), Madden NFL ruðningsleikirnir (1988-), Mario Golf (1999), Tekken (1994-), Mortal Kombat og Street Fighter bardagaleikirnir (1987-)svo dæmi séu tekin. Marga íþrótta- og bardagaleiki má einnig flokka sem herma þar sem þeir reyna að herma eftir raunverulegum íþróttagreinum.

Bandaríska tölvuleikjafyrirtækið EA Games hefur verið áberandi í framleiðslu á íþróttatölvuleikjum undir merkinu EA Sports. Fyrirtækið hefur meðal annars gefið út FIFA, NHL, NBA og golfleiki sem eru gefnir út á u.þ.b. árs fresti með uppfærðri grafík, nýjungum í spilun og uppfærðum leikmannalista. Í leikjum þar sem spilarinn spilar sem heilt lið stjórnar hann yfirleitt einum liðsmanni í einu. Til dæmis í FIFA fótboltaleiknum keppir spilarinn sem heilt fótboltalið en stjórnar aðeins einum leikmanni í einu. Þeir liðsmenn sem spilarinn stjórnar ekki sér gervigreind tölvuleiksins um að stjórna.

Bardagaleikir snúast um að sigra andstæðinga í bardaga. Bardaginn getur verið hefðbundin íþróttagrein (til dæmis box) eða blóðug fantasíu slagsmál (til dæmis Mortal Kombat). Algengast er að spilarinn fái lista yfir bardagakappa í upphafi leiks og fær að velja sér þann kappa sem honum líst best á. Annar spilari eða tölvan stjórnar andstæðingunum. Bardaginn endist í mis margar lotur en sá sem hefur unnið flestar lotur í lok leiks stendur uppi sem sigurvegari. Söguþræði leiksins er gjarnan skipt niður á bardagakappana, svo spilarinn þarf að klára leikinn með öllum bardagaköppunum til að kynnast sögu þeirra allra.

 

PALLA- OG ÞRAUTALEIKIR

Pallaleikir (e. platformer) og þrautaleikir (e. puzzle) eru settir hér í sama flokk þar sem pallaleikir og þrautaleikir eru líkir í spilun. Pallaleikir, einnig þekktir sem hopp- og skoppleikir, eru leikir þar sem leikjapersónan hoppar á milli palla, forðast snertingu við óvini og safnar hlutum. Super Mario Bros. (1985), Sonic the Hedgehog (1991), Ratchet & Clank (2002)og LittleBigPlanet (2008) eru dæmi um vinsæla pallaleiki. Þrautaleikir eru leikir þar sem spilarinn þarf að leysa einhverskonar þrautir og dæmi um vinsæla þrautaleiki eru Tetris (1984), Portal (2007), Angry Birds (2009) og Candy Crush (2012)

Pallaleikir á níunda áratugnum voru yfirleitt í tvívídd þar sem tölvutæknin réð illa við þrívídd. Með tímanum náðu pallaleikir í þrívídd vinsældum og voru orðnir áberandi á tíunda áratugnum. Margir nýlegir pallaleikir hafa þó haldið sig við tvívíddina þar sem hún hentar pallaleikjum afar vel. Dæmi um pallaleiki í tvívídd eru Super Mario Bros. og Sonic. Dæmi um pallaleiki í þrívídd eru Ratchet & Clank og Super Mario Galaxy (2007). Fjöldi nýlegra pallaleikja hafa haldið í gamla hefð og birta leikina í tvívíðu umhverfi í þrívídd. Sú aðferð kallast 2.5D, sem virkar eins og millileið á milli tvívíddar og þrívíddar. Þar eru hlutir í raun í þrívídd en myndavélin í leiknum er föst og sjónarhornið mjög svipað því sem tíðkast í eldri pallaleikjum í tvívídd. Dæmi um pallaleiki í 2.5D eru LittleBigPlanet og New Super Mario Bros Wii (2009).

 

 

 

 

Flokkunarkerfi eru notuð til þess að einfalda leit efnis. Ólíkt kvikmyndum, þar sem algengt er að flokka myndir eftir söguþræði (gamanmyndir, dramamyndir, spennumyndir o.s.frv.) þá eru tölvuleikir oft flokkaðir eftir leikreglum og spilun.